Veiðistaðalýsing - Laxá á Refasveit
Hér á eftir fylgir veiðileiðsögn um ána. Leiðsögnin hefst við ósinn og farið er upp með ánni. Þjóðvegurinn er ekinn frá Blöndósi til Skagastrandar, tekinn er afleggjara eða slóði til vinstri rétt áður en komið er að brúnni yfir Laxá. Slóðinn liggur niður að ósnum (Ósvík, Garðshorn, Melstrengur og Hurðarhylur), en einnig er hægt að keyra að ánni fyrir neðan brúna og aka til veiðistaðanna þar og niður með ánni.
Á leiðinni niður að ósi er hægt að stöðva við Flúðir og hægt er að aka niður að gamla brúarstæðinu. Þar eru bifreiðastæði, en hentugast er að leggja við stíginn og stigann sem liggur niður að ánni (Kistan, Hjónahylur eða Bríkarhylur, Stigastrengur, Gljúfrabúi). Einnig er hægt að legga fyrir neðan gamla brúarsvæðið. Þar er gilið mjög stórbrotið, nánast hrikalegt
Margir freistast til að skyggnast í hylina í gilinu, einkum í Kistuna, en þar sést oft lax. Við mælum ekki með þessu því að oftast kemur styggð á fiskinn og hann veiðist síður.
Á leiðinni niður að ósi er hægt að stöðva við Flúðir og hægt er að aka niður að gamla brúarstæðinu. Þar eru bifreiðastæði, en hentugast er að leggja við stíginn og stigann sem liggur niður að ánni (Kistan, Hjónahylur eða Bríkarhylur, Stigastrengur, Gljúfrabúi). Einnig er hægt að legga fyrir neðan gamla brúarsvæðið. Þar er gilið mjög stórbrotið, nánast hrikalegt
Margir freistast til að skyggnast í hylina í gilinu, einkum í Kistuna, en þar sést oft lax. Við mælum ekki með þessu því að oftast kemur styggð á fiskinn og hann veiðist síður.
Ósvík
Ósvíkin breytist frá ári til árs. Frá árbökkum við óshlíðina er í byrjun sumars hægt að fylgjast með laxatorfum fara inn og út um árósinn. Greinarhöfundar hafa séð laxatorfu synda upp ána á háfjöru, hreint ótrúleg sjón þegar laxinn rennir sér upp sandfjöruna og inn í ósinn. Einnig er bleikja í ósvíkinni. Fólksbílafært er niður að ósnum. Ekið er niður bratta hlíð og þegar blautt er getur slóðinn orðið illfær fólksbílum, því þá verður ansi hált. Gengið er upp með óshlíðinni í átt að Garðshorni sem tekur 5 mínútur. Stundum er jeppafært þangað en ekki er þó mælt með þeim ferðamáta. Þarna er einnig gaman að setjast niður, fá sér kaffisopa, njóta útverunnar og útsýnisins yfir hafið með fuglasöng í bakgrunni.
Ósvíkin er langur veiðistaður sem tekur við af Garðshorni og hefst á löngum streng sem fellur svo í langa breiðu sem liggur niður í ósinn. Sjávarfalla gætir á þessum stað og er helsta vonin í strengnum rétt neðan við Garðshorn en þar virðist lax fyrst staldra við eftir að í ferskvatnið er komið. Gríðarlega skemmtilegur fluguveiðistaður, í raun hentar hann illa til maðkveiða.
Ósvíkin er langur veiðistaður sem tekur við af Garðshorni og hefst á löngum streng sem fellur svo í langa breiðu sem liggur niður í ósinn. Sjávarfalla gætir á þessum stað og er helsta vonin í strengnum rétt neðan við Garðshorn en þar virðist lax fyrst staldra við eftir að í ferskvatnið er komið. Gríðarlega skemmtilegur fluguveiðistaður, í raun hentar hann illa til maðkveiða.
Garðshorn
Þetta er oft gjöfull veiðistaður í byrjun veiðitímabils. Áin er þarna í tveim strengjum og breytir gjarnan um farveg frá ári til árs. Hér er í raun um tvo veiðistaði að ræða, hvor við sinn bergganginn, Syðra- og Nyðra- Garðshorn. Í seinni tíð hefur Nyðra- Garðshorn verið gjöfulla, en áin hefur verið vatnsmeiri þeim megin.
Garðshorn: Í dag er einungis um einn veiðistað að ræða þarna því nyrðra Garðshorn er orðið að malareyri. Syðra Garðshorn er því eini veiðistaðurinn en áin rennur nú í einum streng undir höfða á suðurbakkanum. Best er að læðast niður með höfðanum og renna maðki í strenginn nær suðurlandinu en þar liggur laxinn við steina í botninum. Ef menn vilja heldur veiða á flugu er mælt með því að standa á eyrinni að norðanverðu og kasta þaðan. Ekki er ráðlagt að ganga fram á höfðann til að skyggna staðinn þar sem auðveldlega er hægt að styggja laxinn og í raun getur verið erfitt að sjá hann þar sem mikið er um steina í botninum sem skýla honum.
Garðshorn: Í dag er einungis um einn veiðistað að ræða þarna því nyrðra Garðshorn er orðið að malareyri. Syðra Garðshorn er því eini veiðistaðurinn en áin rennur nú í einum streng undir höfða á suðurbakkanum. Best er að læðast niður með höfðanum og renna maðki í strenginn nær suðurlandinu en þar liggur laxinn við steina í botninum. Ef menn vilja heldur veiða á flugu er mælt með því að standa á eyrinni að norðanverðu og kasta þaðan. Ekki er ráðlagt að ganga fram á höfðann til að skyggna staðinn þar sem auðveldlega er hægt að styggja laxinn og í raun getur verið erfitt að sjá hann þar sem mikið er um steina í botninum sem skýla honum.
Melstrengur
Á Melstreng var áður ágætur tökustaður, en áin hefur verið vatnslítil á þessum stað síðustu árin. Þarna er hvítur steinn í botni og það var einmitt tökustaðurinn. Vísbendingar voru um að áin væri að færa sig að nýju í sinn gamla farveg þarna og þá gefur þessi veiðistaður væntanlega aftur.
Hurðarhylur
Mjög glæsileg flugubreiða, en fyrir ofan hana er tvískiptur hylur beint fram af bergganginum. Það er líka hægt að veiða þarna með maðki. Greinileg hurð er að álfaklettinum. Allt of fáir fara á þennan stað og minni veiði þar því en ella. Við veiðum þarna gjarna og sjáum oft lax. Lax veiðist líka þarna í lok sumars.
Kjósarbreiða, Kjósarhylur og Krummi
Kjósarbreiða er spölkorn fyrir ofan Hurðarhyl og er vel reynandi að kasta flugunni þarna. Rétt ofar við breiðuna er Kjósarhylurinn.
Krummi er fallegur strengur sem rennur við stóran klett á norðurbakkanum sem þekkja má á hrafnslaupi í honum miðjum. Tökustaðurinn er við enda klettsnefsins en þar er nokkuð stríður strengur en í botninum er stór steinn sem laxinn skýlir sér við.
Krummi er fallegur strengur sem rennur við stóran klett á norðurbakkanum sem þekkja má á hrafnslaupi í honum miðjum. Tökustaðurinn er við enda klettsnefsins en þar er nokkuð stríður strengur en í botninum er stór steinn sem laxinn skýlir sér við.
Drottning
Lítill veiðistaður rétt fyrir ofan Krumma.
Kónganef
Vel þess virði að prófa, einkum þegar mikið vatn er í ánni. Hefur verið að gefa vel síðustu ár þó hann virðist ekki spennandi að sjá.
Gljúfrabúi
Gljúfrabúi allt sem einn veiðimaður getur óskað sér og jafnframt er hann einn albesti veiðistaðurinn í ánni. Hann nær frá efsta hvítfyssinu niður á brot. Hér ættu allir að stoppa sem í ána koma, hvort heldur sem er til að njóta stórbrotins landslags eða til að veiða. Þarna eru brattar hlíðar og samt ótrúlega mikil gróður, mosi, hvönn, burkni, blágresi, loðvíðir með meiru. Hylurinn er mjög stór og laxinn leynist víða. Fyrir maðkveiðimenn er rétt að vita að þó nokkuð er um festur ofarlega í hylnum. Þegar laxinn fer niður á breiðuna er það oft tökufiskur. Bæði er hægt að veiða þarna á maðk og flugu. Flestir veiða þarna að sunnanverðu, það fer eftir vatnsmagni hvar laxinn heldur sig. Ef gott vatn er í ánni liggur hann alveg niður á broti en oftast heldur hann sig við tvo stóra steina í botninum á miðri breiðunni.
Stigastrengur
Lax sást oft í strengnum þar sem göngustiginn kemur niður í gilið. Hann liggur þá við norðurbakkann, en tveir steinar marka strenginn í suður.
Hjónahylur eða Bríkarhylur
Mjög stór og mikill hylur rétt fyrir ofan Stigastreng. Þarna er oft lax í miðjum hylnum, en þar er stórgrýti. Einnig liggur oft lax við stálið að norðanverðu. Flestir veiða þarna að sunnanverðu, en ýmsir telja betra að veiða norðanmegin, af því að meiri líkur eru á að styggja laxinn þegar veitt er sunnanmegin. Sumir standa fyrir framan hylinn og kasta upp í hann með maðki og flothylki. Fyrir ofan Hjónahyl eru flúðir og strengir sem rétt er að reyna við.
Kistan
Kistan hefur verið besti veiðistaðurinn í ánni um árabil. Kistan er eiginlega klettaþró, dýpst efst en grynnist síðan niður á fallegt brot. Í framhaldi eru síðan strengir niður í Hjónahyl. Kistan er yfirleitt full af fiski, en getur verið erfitt að eiga við hann. Þetta er draumastaður fyrir maðkveiði en hentar einnig ágætlega fyrir fluguveiði þótt klettastálið sé að baki. Stundum er eins og bergið sé að falla yfir mann. Fyrir ofan Kistuna er laxastiginn og má ekki veiða í honum né heldur í Ámundahlaupi. Þar sést stundum lax. Tökustaðurinn er mjög neðarlega í strengnum, nánast á brotinu. Fara þarf mjög varlega því auðvelt er að styggja fiskinn.
Varast þarf grjóthrun úr berginu þegar veitt er í Kistunni.
Varast þarf grjóthrun úr berginu þegar veitt er í Kistunni.
Flúðir
Þær bera nafn sitt með réttu, en áin lækkar þarna mikið og myndar klettaflúðir, rétt fyrir ofan laxastigann og gamla brúarstæðið yfir Ámundahlaup. Tökustaður er einkum þar sem meginhluti vatnsins skellur á steinriði. Þar safnast fiskur fyrir við suðurbakkann en þar myndast pottur út frá litlum kletti í bakkanum með nokkurri vatnsólgu og töluverðu dýpi. Stundum sést lax í pottinum. Þetta er fyrst og fremst maðkastaður, en má reyna með flugu. Í Flúðunum eru margar litlar holur sem allar geta geymt lax í göngu. Mælt með því að renna skipulega í þær allar.
Einbúi
Um 400 metrum fyrir ofan Flúðir er Einbúi, sem var á árum áður ágætur veiðistaður. Hinsvegar er áin þarna í norðurstrengnum vatnslítil í dag og staðurinn ekki veiðilegur. Virðist hafa fyllst af möl.
Vaðhylur
Rétt fyrir ofan Einbúa, fyrir framan eyju í ánni. Mjög skemmtilegur staður ef gott vatn er í ánni. Byrjar í streng en endar
á smá breiðu. Helsta vonin er þar sem hægja fer á strengnum. Lagfærður 2015.
Horneyri
Er lítill pollur tæplega 100 metrum fyrir ofan Vaðhyl. Er rétt fyrir framan litla malareyri úit í ánni. Hefur ekki gefið fisk síðustu ár. Lagfærður 2015.
Hornbreiða
Fallegur og frábær fluguveiðistaður, sem er rétt fyrir ofan krappa beygju í ánni. Lax getur verið þarna víða og þó einkum við tvo nokkuð áberandi steina úti í strengnum. Stundum sést fiskur bylta sér í strengnum.
Horn
Er fremur lítill pollur upp með klettinum og síðan er Hornbreiðan í beinu framhaldi.
Grófarhylur
Oft verið einn af bestu veiðistöðum árinnar. Hann byrjar í rennu fyrir neðan háan klett og breikkar síðan og dýpkar og endar með fallegri breiðu, gott að læðast niður með suðurbakkanum og renna maðkinum undir bergið þar sem rennan hefst en sama má gera á norðurbakkanum því berggangur er sitthvorumegin við rennuna og liggur laxinn gjarnan við eða undir berginu. Laxinn getur einnig legið niður á breiðunni en best er að veiða hana á flugu. Fara þarf mjög varlega á þessum stað því auðvelt er að styggja laxinn, helst er mælt með því að skríða þarna um.
Neðri Rani
Er í beinu framhaldi af Grófarhyl og mætti í raun segja að þarna sé um einn og sama veiðistaðinn að ræða. Þarna rennur áin undir stórum kletti sem hægt er að ganga fram á og skyggna en fara verður varlega að því. Ef aðstæður leyfa er best að vaða að ofanverðu út í strenginn og renna á undan sér en í góðu vatni getur það reynst ómögulegt. Þá er best að veiða staðinn frá norðurbakkanum. Kunnáttumenn hafa þó stundum veitt staðinn frá suðurlandinu með því að ganga út undir klettinn að neðanverðu og sjónrennt þaðan en mjög hætt er við því að styggja fiskinn á þann hátt. Þessi staður geymir fisk allt tímabilið líkt og Grófarhylur.
Efri Rani
Er við stóran stein á suðurlandinu og er strengur sem liggur meðfram steininum og endar í hyl. Helsta vonin er í strengnum við steininn og jafnvel í jaðri strengsins. Nokkuð dýpi er á þessum stað.
Flaumur
Stór og mjög glæsilegur hylur við bjargið undir brúnni. Í hylnum skapast hringiða og þó nokkur straumur. Í hylinn fellur foss, sem oft er fyrirstaða og lax safnast í hylinn. Oft hægt að njóta þess að sjá hann stökkva upp fossinn. Erfitt getur reynst að veiða þennan stað bæði vegna þess að þarna er mikið um afætu auk þess sem mikið hringstreymi myndast í fossinum. Helsta vonin er í straumtaglinu. Í mjög miklu vatni getur laxinn hörfað undan straumnum og bíður hann þá fyrir neðan Flaum við stóra steina á vesturbakkanum þar sem áin tekur 90 gráðu beygju til norðurs.
Snagi
Er beint fyrir ofan
þjóðvegsbrúna. Stórir steinar standa þarna frá norðurlandinu og út í ána og
myndast hylur við þá. Besti staðurinn er fyrir framan efsta steininn en þar
rennur strengur meðfram steininum en nokkuð djúp skál fyrir framan.
Göngumannahylur
Göngumannahylur er með allra fallegustu veiðistöðum í ánni og þó víðar væri leitað. Þetta er í raun samsett og fjölbreytt svæði sem byrjar með strengjum, síðan tekur við löng og tignarleg renna, næst stór og mikill hylur og loks breiða. Draumastaður fyrir bæði maðk- og fluguveiði. Þarna er oft mikið af fiski og hann sést oft ofan frá bökkunum þar sem farið er niður að ánni, rétt áður en komið er að fjárhúsunum við Njálsstaði.Göngumannahylur er nokkuð vandveiddur veiðistaður sem ávallt geymir lax og oft í talsverðu magni. Staðurinn hefst á stríðum streng og hyl sem fellur í tvær rennur og endar svo á mikilli breiðu. Helsti legustaðurinn er við bergið við enda rennunnar sitthvoru megin og einnig þar niður af þar sem breiðan tekur við en þar er nokkuð dýpi. Hægt er að renna niður með berginu frá báðum bökkum en fara verður varlega því auðvelt er að styggja laxinn þaðan. Breiðuna er best að veiða á flugu. Ef laxinn er kominn upp í strenginn eða hylinn fyrir ofan rennurnar er um að ræða göngulax sem líklegur er til töku.
Húsakvörn
Snotur veiðistaður um 500 metrum ofan við Göngumannahyl, bent fyrir neðan bæinn Njálsstaði. Er rétt fyrir framan malareyri sem er þarna í ánni. Hentar einkum fyrir maðkveiði.
Stallur
Fallegur strengur sem oft geymir fisk. Bæði er hægt að reyna maðk og flugu. Stallur er um kilómetra fyrir ofan Húsakvörn.
Ármót
Ármót Norðurár og Laxár hafa breyst töluvert síðastliðin ár en áin hefur rutt sig duglega þarna í vorleysingum og skilið eftir hálfgerðar grynningar á löngum köflum. Þó stoppar lax í strengnum við grasbakkann sunnan megin, töluvert fyrir neðan sjálf ármótin og er þá best að standa á eyrinni að norðanverðu og kasta flugunni þaðan, byrja á stuttu köstunum því laxinn getur legið víða allt frá eyrinni. Hinsvegar ef menn kjósa að veiða á maðk er betra að vaða út í strenginn og renna niður fyrir sig eða fara yfir á suðurbakkann og renna varlega meðfram honum.
Réttarstrengir (urriðaholur)
Margar holur sem allar geta geymt lax í göngu. Líkt og í Flúðunum er ráðlagt að renna skipulega í þær allar. Helsta vonin er í stærstu holunni við norðurlandið en í henni er stór steinn og aðeins hægara rennsli sem gefur laxinum færi á að hvílast.
Hrafnshylur
Í raun er um að ræða tvo veiðistaði, annan að ofanverðu áður en áin beygir til vesturs en í honum er strengur sem vel getur haldið laxi. Neðri staðurinn er þó mun álitlegri en um er að ræða streng sem oft geymir lax. Hægt er að veiða staðinn frá báðum bökkum en líklega er þó betra að athafna sig á suðurbakkanum.
Nátthagahylur
Góður veiðistaður rétt fyrir ofan Hrafnshyl. Hægt er að leggja bílnum á háum bakka beint fyrir ofan staðinn og freistast margir til þess að skyggna hylinn frá þessum bakka. Ekki er mælt með því að skyggna staðinn nema farið sé mjög varlega og hreinlega skriðið út á brúnina því yfirleitt verður laxinn manns var. Best er að ganga niður hlíðina að ofanverðu og nálgast staðinn þaðan. Stór steinn er ofarlega í strengnum og stendur toppurinn yfirleitt uppúr en í góðu vatni fer hann á kaf. Við steininn leggst laxinn oft eða rétt niður af honum. Einnig getur laxinn legið töluvert neðar á hægara vatni en best er þá að kasta flugu á hann frá suðurlandinu.
Aðrir veiðistaðir í Laxá
Á milli Göngumannahyls og Snaga eru nokkrir straumar og lax hefur fengist í þeim. Einnig eru straumar og holur á milli Húsakvarnar og Stallsins. Þar hefur einnig fengist lax.
Veiðistaðir ofar í Laxá
Margir álitlegir staðir eru á dalnum og ber þá helst að nefna staði sem renna meðfram grasbökkunum neðan við veiðihúsið og Mánaskál, jafnvel alveg upp að Núpsgili. Þessir staðir eiga það sameiginlegt að renna eftir grasbökkum og getur laxinn víða laggst undir bakkana. Gaman er að taka sér góðan göngutúr og renna skipulega yfir svæðið, sérstaklega síðsumars. Laxinn getur hæglega gengið ofar og virðist sem laxinn sé smám saman að fikra sig upp dalinn því vöxtur virðist vera í veiðinni á dalnum með hverju ári en þó gæti aukin ástundun spilað þar inn í.